04 apríl 2011

Framkvæmdir á heimilum

Framkvæmdir á heimilum
Þegar ráðist er í framkvæmdir á heimilum og húsum, hvort sem þær eru stórar eða smáar, skiptir máli að skipuleggja þær vel. Það er betra að mála stofuna áður en parketið er lagt ef á annað borð á að gera hvoru tveggja og betra að huga að pípulögnum á baðherbergi áður en flísar eru lagðar. Ef skipta á um þakjárn á fjölbýlishúsi er nauðsynlegt að halda húsfund með góðum fyrirvara. Meiri breytingar á þaki þarf jafnvel að láta teikna og fá samþykktar af íbúum áður en sótt er um leyfi til byggingarfulltrúa.

Vistvænt efni
Undanfarin ár hefur viðhorf til umhverfisins tekið stakkaskiptun. Mun algengara er að fólk vilji nota vistvænt efni við framkvæmdir. Þá er skynsamlegt að velja efni sem auðveld eru í viðhaldi og sem eru endingargóð. Ef um er að ræða sambærileg byggingarefni er endingarbetra efnið umhverfisvænna en það sem endist skemur.

Húseigendur, sem vilja bæta umhverfið, hafa það að markmiði að nýta allt sem best. Það getur verið jafn skemmtileg glíma að breyta því sem fyrir er og að nýta það sem er til staðar í stað þess að fleygja öllu og kaupa nýtt. Við þær aðstæður væri ánægjulegt að geta flett upp í viðhaldsbók og séð hvernig staðið var að málum þegar það var unnið sem nú skal breytt. Viðhaldsbók er fyrst og fremst hagnýt við allar framkvæmdir en auk þess getur hún verið skemmtileg lesning hvort sem flett er upp eigin framkvæmd eða fyrri eiganda íbúðar eða húss. Minnið svíkur okkur óþægilega hratt og þeir sem þykjast muna halda oft bara að þeir muni rétt. Ef við búum okkur aftur á móti til viðhaldsbók getum við hvenær sem er flett upp í henni og séð hvenær hlutirnir voru gerðir, hver vann fyrir okkur og hvaða efni voru notuð og metið hvort tími sé kominn á nýtt viðhald.

Viðhaldsbók eignar og húsfélags
Viðhaldsbók sem einu sinni er búin til á www.vidhaldsbok.is fylgir viðkomandi fasteign þótt hún skipti um eigendur. Húseigandi og félagar í húsfélögum geta fært viðhald á eignum sínum til bókar með því að skrá sig og nota vefinn reglulega. Sérstök viðhaldsbók er búin til fyrir hverja íbúð. Ein sameiginleg viðhaldsbók er fyrir húsfélagið í húsinu og í hana eru skráðar upplýsingar um viðhald sem húsfélagið stendur fyrir. Eigandi eignar skráir upplýsingar um viðhald sem hann stendur fyrir í sinni íbúð í viðhaldsbók fasteignar sinnar.



Viðhaldsbókin er stundum kölluð húsbók með tilvísun í að húsbókin inniheldur viðhaldsbók, símaskrá og fleiri upplýsingar um fasteignina eins og t.d. ástandsmat sem eigandi getur fyllt út ef hann ætlar að setja eignina sína í sölu. Það sýnir hans mat á ástandi eignarinnar sem tilvonandi kaupandi getur skoðað og metið þegar hann kemur og skoðar fasteignina. Það þarf ekki mikið til að tengja viðhaldsbók valinnar eignar við fasteignavef þ.a. áhugasamir kaupendur viðkomandi fasteignar geti skyggnst inn í hana ef eignin er auglýst til sölu, skoðað valdar upplýsingar sem notandi heimilar að birtist, en sú tenging hefur enn sem komið er ekki verið framkvæmd. Húsbókin inniheldur einnig stutt yfirlit sem notandi skráir um byggingarsögu eignarinnar.

Skráning og notkun er notendum að kostnaðarlausu og á þeirra eigin ábyrgð. Notandi býr til viðhaldsbók fyrir eignina sína og skráir síðan í hana upplýsingar um viðhaldsverk, efni sem eru notuð og fleira sem á við hverju sinni.

Fasteignaeigendur mæla með iðnaðarmönnum sem þeir eru ánægðir með

Viðhaldsbókin er þannig uppbyggð að henni tengist símaskrá þar sem fasteignaeigandi skráir nafn og símanúmer fagmanns sem vinnur fyrir hann. Þegar faseignaeigandi skráir viðhaldsverk í viðhaldsbók getur hann gefið viðkomandi fagmanni einkunn á bilinu 0 – 5. Aðeins þeir fagmenn sem fá einkunnina 4 eða 5 birtast á listanum „Finna fagmann“. Aðrir fasteignaeigendur sem þurfa á fagmanni að halda geta flett upp í listanum og hringt í viðkomandi fagmann.



Verkbók fagmanns
Fagmönnum stendur til boða að skrá upplýsingar um sig og verk sín í verkbók fagmannsins. Fagmaðurinn skráir sig inn á vefinn og skráir þar upplýsingar um sig sem allir notendur vefsins geta skoðað. Þegar fasteignaeigandi þarf á fagmanni að halda getur hann annað hvort leitað að fagmanni sem aðrir eigendur mæla með af listanum „Finna fagmann“ eða leitað beint í verkbók fagmannsins. Þegar fram líða stundir ættu fagmenn einnig að geta skráð upplýsingar um verk frá sínum sjónarhóli og tengt verkið við viðhaldsbók viðkomandi eignar.

Lokaorð
Ýmislegt fleira er að finna á vefnum, svo sem fróðleik, fundargerðarform og fleira gagnlegt.

Meðfylgjandi eru tvær skjámyndir teknar af vefnum. Önnur sýnir lista yfir viðhaldsverk eignar en hinn lista yfir fagmenn sem notendur mæla með.
Reykjavík 4. apríl 2011
Þóra Jónsdóttir
vbok@vbok.is