04 maí 2008

Félag fasteignasala með nýjan fasteignaleitarvef í bígerð

Fasteignarleitarvefir eru í dag tveir á Íslandi, vefur mbl.is og vefur habil.is.

Í afmælisriti Félags fasteignasala, maí 2008, kemur fram í viðtali við Grétar Jónasson, framkvæmdastjóra Félags fasteignasala, að félagið mun á næstunni kynna nýjan fasteignaleitarvef, www.fasteignir.is.

Tilgangurinn er að auðelda fólki að finna eignir á netinu og bæta gæði auglýsinga vegna eigna sem eru til sölu. Fasteignasalarnir eru þeir sem skrá eignir á sölu og þeir búa yfir öllum upplýsingunum sem til þarf til að reka góðan fasteignarleitarvef. Auk upplýsingar um eignir á söluskrá er ætlunin að birta ýmsar gagnlegar upplýsingar á vefnum.

Fyrirhugað er að opna vefinn formlega í ágúst 2008.

V3.is óskar Félagi fasteignasala til hamingju með fyrirhugaðan vef. Það verður spennandi að fylgjast með þróun fasteignaleitarvefja næstu mánuðina. Ætli einhverjum detti í hug að tengill í rafræna viðhaldsbók fasteignar í sölu, gæti verið áhugaverður valkostur á fasteignaleitarvef?

13 apríl 2008

Örbylgjuloftnet í fjölbýlishúsi.

Eftirfarandi fyrirspurn barst V3.is 12.apríl 2008.



Við hér í blokkinni höfum verið með örbylgjuloftnet sem nú er orðið ónýtt. Nú hagar málum þannig að meirihl. íbúa notar ekki lengur loftnetið heldur er með sjónvarp tengt við ADSL. Þurfa allir að taka þátt í kaupum og uppsetningu á nýju loftneti þó svo þeir þarfnist þess ekki lengur?
Kv. S.


Svarið sem V3.is sendi S:

Hæ. Takk fyrir fyrirspurn þína. Þetta er mál sem varðar marga í húsfélögum og eftirfarandi er mitt mat á þessu máli.



Það eru nokkrir möguleikar í boði til að taka inn sjónvarp. Síminn býður upp á sjónvarp í gegnum ADSL og í gegnum breiðband. Vodafone er að þróa það sama hjá sér og mun væntanlega bjóða upp á samsvarandi tengingarmöguleika síðar. Staðreyndin er þó að maður þarf að greiða nokkur þúsund kr. á mánuði fyrir að vera með ADSL tengingu þótt sjónvarpstengingin sjálf eigi ekki að kosta neitt. Flestar sjónvarpsstöðvarnar bjóða upp á sjónvarp í gegnum ljósleiðara Orkuveitunnar svo og yfir loftnetstenginu. Vandinn er aðeins að ekki eru allir komnir með ljósleiðarann og greiða þarf grunngjald mánaðarlega til Orkuveitunnar fyrir áskrift að ljósleiðaranum, en ekki að sjónvarpsmerkinu í gegnum loftnetið.



Bæði ADSL tenging Símans og tenging við ljósleiðara Orkuveitunnar, bjóða fyrst og fremst upp á tölvutengingu auk möguleikans á að taka inn sjónvarp.


Þeir sem eru bæði með sjónvarp og internet hafa væntanlega áhuga á að taka inn sjónvarpið í gegnum ADSL/ljósleiðarann, sérstaklega ef gæðin verða betri en í gegnum loftnetið. Þeir sem eru ekki með internetið og bara með sjónvarp vilja væntanlega nota (örbylgju)loftnetið enda er loftnetstenging án mánaðargjalds en á móti kemur að greiða þarf fyrir loftnetið í byrjun og kostnað vegna uppsetningar þess.



Samantekt:

Ég held að stjórn húsfélagsins eigi að leggja þetta fyrir húsfund og kosið verði um það hvernig eigi að skipta kostnaðnum fyrir uppsetningu nýs örbylgjuloftnets og hvernig taka eigi á því þegar íbúð er seld og nýr eigandi vill nýta sér loftnetið ef núverandi eigandi hennar "á ekkert í loftnetinu".



Örbylgjuloftnet eru gæði sem fylgja íbúð, ef tengingar frá loftneti í vegg íbúðarinnar eru til staðar. Áskrift að ADSL/breiðbandi/ljósleiðara er á nafni eiganda íbúðar og fylgir ekki íbúð þegar hún er seld.



Ég lagði fyrirspurn þína og svarið inn á spjallborð V3.is, www.spjallbord.com þar sem fólk getur líka sagt sína skoðun. Með kveðju, frá V3.is/ÞJ

24 mars 2008

Viðhaldsbók - www.V3.is auglýsir eftir notendum

Viðhaldsbók hússins - www.V3.is auglýsir eftir notendum til að opna viðhaldsbók fyrir eign sína.

Tilgangurinn með vefnum, www.V3.is er að búa til skráningartól sem venjulegt fólk getur notað til að færa til bókar viðhald á eignum sínum. Tólið inniheldur símaskrá þar sem notandi skráir inn nöfn iðnaðarmanna og símanúmer. Notendur skrá einnig hve ánægðir þeir er með iðnaðarmanninn sinn og deila nöfnum og símanúmerum fagmanna sem vinna vel og mæla má með við aðra.

Allir sem eru að leita sér að fagmanni geta farið inn á vefinn og skoðað hvaða iðnaðarmönnum notendur V3 mæla með.

03 febrúar 2008

Ef íbúðinni hefði tilheyrt viðhaldsbók...

Hjón í Reykjavík keyptu sér íbúð á annarri hæð í litlu fjölbýli. Íbúðin leit vel út með parketi á stofunni. Parketið leit út fyrir að vera nýlegt en eitthvað fannst fólkinu vera að því. Þau fóru því í það að taka upp parketið af gólfinu. Þá kom í ljós að undir parketið hafði verið lagður plastdúkur. Þetta fannst þeim auðvitað frekar skrítið. Undir plastdúknum kom í ljós raki. Í stað þess að uppræta þennan raka þegar parketið hafði verið lagt á sínum tíma, var bara plast lagt yfir gólfið til að hlífa nýja parketinu.


Við nánari skoðun kom í ljós að rakinn stafaði af leka í gegnum sprungu í útvegg. Þetta dæmi sýnir ókunnugleika á eðli málsins. Ávalt skal finna og stoppa leka, þegar hans verður vart. Sama þótt það kosti húseigandann meiri útjöld og tafir, aldrei skal reyna að fela leka með því að setja yfir hann plast, dúk eða reyna að klæða hann á einhvern hátt af. Rakinn er jafn slæmur þótt hann sjáist ekki um stund, en hann kemur fram fyrr eða síðar, t.d. við næstu framkvæmdir eða lyktin sem fylgir rakaskemmdum fer að gera vart við sig. Mygla fylgir gjarnan raka.


Það skal einnig tekið fram að í fjölbýlishúsum er kostnaður vegna viðgerða á sprungum í útveggjum oftast sameiginlegur. Ef raki er í vegg og eigandi eignar telur að það sé vegna sprungu í útvegg, á hann að taka málið upp á húsfundi. Ef skemmdir eru farnar að gera vart við sig er oftast ekki eftir neinu að bíða, heldur að fá húsfélagið að ganga í málið. Raki í vegg getur einnig stafað af leku röri eða óþéttu baðherbergi í íbúð fyrir ofan viðkomandi vegg.
Reglan er að ef vart verður við raka við einhverjar framkvæmdir, skal finna hvaðan hann kemur og ráðast í viðgerðir til að losna við hann!


Ef þessari íbúð hefði tilheyrt viðhaldsbók, sem hefði verið samviskusamlega fyllt út, þá hefði í henni væntanlega komið fram að plast hefði verið lagt undir parketið. Þá hefðu núverandi kaupendur getað spurt nánar um þetta, hvers vegna var plast lagt undir parketið? Því slíkt gerir væntanlega ungur fasteignaeigandi sem hefur litla reynslu af viðhaldi og veit ekki hvað hann er að gera og gerir það væntanlega í góðri trú. Lykilatriðið við viðhaldsframkvæmdir er að vita hvernig var verkið unnið, hverjir unnu það og hvaða efni var notað. Eigandi sem heldur vel utan um allar sínar framkvæmdir og getur sýnt viðhaldsbókina sína þegar hann selur eignina sína, leggur spilin á borðið. Hann fær væntanlega síður á sig ásakanir um að hann hafi haldið mikilvægum upplýsingum leyndum með tilheyrandi fundum með lögfræðingum til að leita sátta.


Húseigendur, það er aldrei of seint að byrja að færa viðhaldið sitt til bókar. Gjörið svo vel að nota vefinn http://www.v3.is/ til þess. Skráning og notkun er án endurgjalds.

22 janúar 2008

Gamlir hankar fá nýtt líf á baðherberginu

Skemmtileg útfærsla á hönkum fyrir baðherbergið
Úrræðagóðan náunga vantaði hanka á baðherbergið sitt. Hann vildi ekki nýja hanka og vildi lausn sem myndi gæða baðherbergisvegginn nýju lífi. Hugmyndin sem hann fékk og útfærði var að kaupa alls konar gamla hanka og mála þá í sama lit og festa á fjöl sem yrði fest á baðherbergisvegginn. Hann fór í verslun sem selur gamla muni og á flóamarkað og kom heim með nokkra mismunandi hanka.


Hann sauð hankana til að losa þá við óhreinindi og fitu, festi hankana á fjöl og málaði. Við bíðum eftir að sjá framhaldið........

11 janúar 2008

Að rífa gamalt hús og byggja nýtt

Getum við sem húseigendur, ákveðið að rífa húsið okkar og byggja nýtt á lóðinni?
Hvaða ferli setjum við af stað ef við ákveðum að rífa húsið okkar? Er nóg að sækja um hjá Byggingafulltrúa?
Það væri gaman að fá að vita meira um hvernig þetta fer fram í framhaldi af umræðunni um húsin á Laugavegi 2 og 4, sem eru eftst á baugi um þessar mundir. Ef einhver ykkar, kæru lesendur, veit eitthvað um þetta, segið okkur hinum frá því hvernig svona mál ganga fyrir sig almennt í Reykjavík og/eða í öðrum sveitarfélögum.

01 janúar 2008

Gleðilegt nýtt ár!



V3.is óskar notendum sínum öllum gleðilegs nýs árs.



Árið 2008 er gengið í garð og við hæfi að líta yfir það sem áunnist hefur á árinu 2007. Í febrúar 2007 var fyrirtækið Viðhaldsbók ehf stofnað. Um vorið leit fyrsta útgáfa vefsins http://www.vidhaldsbok.is/ dagsins ljós. Fljótlega var fjárfest í léninu V3.is og sótt um skrásetningu merkisins V3 til Einkaleyfastofu. V3 var skrásett sem vörumerki á árinu.
V3 stendur fyrir þrjár rafrænar bækur, sem eru aðgengilegar notendum í gegnum vefinn http://www.v3.is/. Bækurnar eru: Viðhaldsbók fasteignaeigandans, viðhaldsbók húsfélagsins og verkbók fagmannsins.
Megin þungi vinnunnar við vefinn á árinu 2007 hefur verið að fá fram lágmarksvirkni, fá ákveðin atriði til að virka. Flest þessara atriða eru komin inn og virka. Minni áhersla var lögð á útlitið á vefnum, fyrr en í lok ársins en þá var athyglinni beint að útlitinu. Vinna við það svo og áframhaldandi vinna með virkni vefsins heldur áfram á nýju ári.
Eftirfarandi eru megin atriðin sem náðst hafa á árinu 2007:
A. Vefurinn http://www.v3.is/ eða http://www.vidhaldsbok.is/ er kominn í loftið
B. Fasteignaeigendur geta skráð hjá sér í gagnagrunn, upplýsingar um viðhald sem þeir standa fyrir á eignum sínum. Auk þess skrá þeir hjá sér upplýsingar um fagmenn sína og mæla með þeim ef þeir eru ánægðir með þá. Allir geta farið á vefinn og leitað sér að fagmanni sem húseigendurm mæla með
C. Eigandi eignar í húsfélagi getur skráð kennitölu húsfélagsins á eignalistann sinn og fengið aðgang að viðhaldsbók húsfélagsins. Hann getur skráð í hana viðhaldsverk og fleira sem snýr að húsfélaginu
D. Fagmaður getur skráð upplýsingar um sig og þjónustu sem hann býður upp á. Allir geta leitað að fagmanni sem skráir sig á V3.is
E. V3 vaktin er bloggsíða V3 þar sem ýmsum upplýsingum er komið á framfæri
F. http://www.spjallbord.com/ er spjallborð á vegum V3.is. Þar geta fasteignaeigendur, fagmenn og þeir sem áhuga hafa á málefninu, spjallað um allt sem snýr að fasteignum, viðhaldi þeirra og málefni því tengd
G. V3 pósthópur hefur verið stofnaður. Þeir sem óska eftir að vera í pósthópi og fá öðru hvoru fréttir af V3.is, geta skráð sig í pósthópinn með því að fylla út beiðni um aðgang á eftirfarandi slóð: http://groups.google.com/group/v3is
H. Finna leið. Vegvísun á netinu. Notandi velur upphafsstað og áfangastað eru tilteknir, birtist kort sem sýnir leiðina milli tveggja staða. Notandinn flyst yfir á vef Map24 og kortið birtist þar
Ýmislegt fleira hefur verið á dagskránni á árinu og má þar nefna fróðleikskaflann og möguleikann að opna viðhaldsbók eignar sem er í sölu.
Markmið ársins 2008 er að þróa vefinn áfram og koma honum betur á framfæri.
Fyrir hönd V3.is - Viðhaldsbókar ehf, sendi ég ykkur öllum mínar bestu kveðjur.
Þóra Jónsdóttir, tölvunarfræðingur