24 júlí 2008

Lán til að kaupa sumarbústað

Jæja, ég er búin að skoða nokkrar sumarhúsabyggðir í Borgarfirðinum og líst vel á allflesta staðina. Ég er ekki enn búin að gera upp við mig hvort ég vilji byrja á að leigja mér lóð og byggja bústað frá grunni eða kaupa eldri bústað. En ég vil gjarnan vera á leigulóð.

Ég ákvað í dag að skoða núna fjármálin betur og leit á heimasíður bankanna. Hvaða lánakjör ætli séu í boði fyrir fólk eins og mig sem langar í sumarbústað?

Jú, því miður, það eru ekki góðar fréttir. Bankarnir virðast lána til að byggja eða kaupa sumarbústað og/eða lóð. Þeir bjóða sýnist mér allir verðtryggð lán með 10 -12% vöxtum! Hvorki meira né minna. Þetta finnst mér of háir vextir ofan á verðtrygginguna. Það borgar sig greinilega að BÍÐA og LEGGJA FYRIR og sjá hvað gerist á sumarhúsamarkaðnum og lánamarkaðnum næsta árið......

Með V3 kveðju. Þ.
Veist þú að þú getur, endurgjaldslaust, fært viðhald eignarinnar þinnar til bókar á vefnum: www.V3.is - Viðhaldsbók hússins þíns

20 júlí 2008

Leigulóð eða eignarlóð fyrir sumarbústað?

Nú er viku dvöl í Borgarfirði lokið. Ég skoðaði lóðir og sumarbústaði sem eru til sölu (og lóðir til leigu), allt frá Skorradal upp í Húsafell og út á Mýrar. Ég komst nú ekki yfir öll sumarhúsahverfin en kom í nokkur þeirra. Til dæmis hverfið við Stóra Ás og nokkur hverfi við Skorradal. Lóðir í bígerð við Hraunsás voru einnig skoðaðar. Sumarhús og lóðir við Brókarvatn, í Svartagili, í landi Hallar og á Hvítársíðu voru skoðuð. Lóðir og bústaðir í landi Grímsstaða voru einnig skoðaðir. Ég ætlaði að skoða lóðir í Hvalfirðinum en það varð ekkert úr því að þessu sinni.

Og hver er niðurstaðan? Er skynsamlegt að kaupa lóð eða leigja eða kaupa eldri bústað? Á hann að vera á leigulóð eða á eignarlóð?

Í fyrsta lagi er ég búin að komast að niðurstöðu ef ákvörðunin verður að lokum að byrja á að fá mér lóð, án bústaðar. Það er ódýrara að leigja lóð en að kaupa. Og borgar sig ekki að mínu mati, að kaupa frístundalóð, hvernig sem maður reynir að reikna það dæmi til enda.

Dæmi
Leigulóð fæst gegn greiðslu 1.300.000 kr. upphafsgjald. Leiga á ári er 35.000 kr. og leigutíminn er 30 ár. Ákveðin þjónusta er innifalin í leiguverði. Sama lóð fæst keypt á 4.000.000 og engin leiga en ekki nein þjónusta þar sem ekki er verið að leigja neitt. Segjum að ég eigi 4.000.000. Ég festi mér leigulóðina og á 2.700.000 krónur eftir. Ég legg þær í banka og fæ miðað við 10% vexti 243 þús í vexti á ári að frádregnum fjármagnstekjuskatti.
Ég borga 35.000 krónur í ársleigu og á eftir 208 þúsund krónur. Gróflega reiknað þá á ég eftir 30 ár 6.000.000 í bankanum..... + 2.700.000 upphaflega höfuðstólinn. Þá get ég hugsanlega ákveðið að kaupa lóðina ef út í það er farið, en ég get ekki alveg reiknað út hvað hún muni kosta þá.... En ef ég get framlengt lóðarsamninginn þá myndi ég gera það og nota peningana í bankanum til að gera eitthvað fyrir bústaðinn!

Ef ég aftur á móti kaupi lóðina í dag þá á ég hana og þarf ekki að borga neina leigu en ég á enga peninga inni á bankanum eftir 30 ár. Ekki neinar 8.700.000 eins og ef ég hefði leigt lóðina.

Leigulóð með þeim gæðum sem fylgja flestum þeirra er ódýrari kostur fyrir þann sem lætur sig dreyma um að koma sér upp sumarbústað. Að mínu mati.

Með nýjum lögum um leiguland fyrir sumarbústaði er staða leigjandanna mjög bætt miðað við það sem áður var. Því ætti maður ekki að hika við að leigja sér land undir sumarhús svo framarlega sem gerður er fullgildur leigusamningur. Samningurinn ætti að vera til minnst 30 ára og tiltekið í honum hvað gerist eftir 30 ár þegar hann rennur út. Og ef maður selur bústaðinn sinn að þá geti kaupandinn gengið inn í samninginn sem fyrir er.

Í leigusamningnum þarf að vera ákvæði um það hvort hægt sé að rifta honum áður en samningstíminn er liðinn og hvernig skuli standa að því ef til þess kæmi. Það ætti að vera torvelt fyrir eiganda landsins að rifta leigusamningnum ef leigusali stendur í skilum með leigu og uppfyllir samninginn að sínu leiti. Ef eigandi vill rifta leigusamning og eigandi bústaðar vill ekki flytja bústaðinn í burtu, þá þyrfti landeigandinn jafnvel að kaupa bústaðinn og borga matsverð fyrir hann og gróður sem búið er að planta á landinu.

Ef rétt er staðið að málum get ég eftir það sem ég er búin að vera að skoða um þessi mál ekki með nokkru móti séð að það sé miklu betra að kaupa lóð en að leigja hana eins og fólk virðist í dag almennt halda.

Það sem ég sé aftur á móti er að landeigendur hagnast miklu meira á því að selja lóðirnar heldur en að leigja þær. Og því hafa þeir nýlega áttað sig á. Ef okkur er talið trú um að það sé miklu öruggara að kaupa lóð en að leigja hana, þá erum við að hjálpa landeigendum að hagnast sem mest á lóðunum sínum. Á kostnað okkar sjálfra, venjulega fólksins, sem getur ef til vill ekki látið drauminn um sumarbústað verða að veruleika ef við þurfum að kaupa lóð á 4.000.000 og svo eigum við eftir að gera allt sem við þurfum að gera.

Við gætum aftur á móti keypt leigulóð á 1.300.000, keypt lítið gestahús og komið okkur upp litlu húsi með rafmagni og köldu vatni og rotþró, á ca 2.700.000. Og byrjað að njóta litla bústaðarins okkar, sett niður blóm og plöntur og byrjað að rækta okkar eigin trjá- eða grasagarð.

Niðurstaða mín í dag er að ég er sannfærð um að leigulóð skal það vera og nú er spurningin hvort á ég að byrja með nýja leigulóð eða kaupa mér eldri bústað á leigulóð? Það er verkefni næstu daga að kanna þetta og reikna dæmið til enda.

Með V3 kveðju. Þ.
Veist þú að þú getur, endurgjaldslaust, fært viðhald eignarinnar þinnar til bókar á vefnum: www.V3.is - Viðhaldsbók hússins þíns

06 júlí 2008

50.000 lóðir fyrir sumarhús......

Samkvæmt fréttum hjá RUV í kvöld er búið eða langt komið að skipuleggja um 50.000 sumarhúsalóðir á Íslandi! Fjöldi sumarbústaða er um 14.000 bústaðir þ.a. fjöldi lóða ætti að duga næstu þrjár aldirnar skv. fréttinni. Skv. fréttinni má ætla að verð á sumarbústaðalóð, og gat ég ekki alveg skilið hvort um var að ræða leigulóð eða eignarlóð, myndi lækka um 50%. Það er eins gott að taka öllum sumarbústaðahugleiðingum með ró og ekki flýta sér. Bíða og fylgjast með....

01 júlí 2008

Ætti ég frekar að byrja á að fá mér lóð?

Ég fór í klippingu í dag sem er í sjálfu sér ekki frásagnarvert. En, hárgreiðslukonan mín sem á sumarbústað í Borgarfirðinum, benti mér á að það væri hægt að fá leigulóð á 1.000.000 (og jafnvel minna) og byggja sjálfur fínasta sumarhús fyrir 10.000.000. Og það gæti maður byggt á nokkrum árum, þ.a. ef ég ætlaði að kaupa mér sumarbústað þá skyldi ég athuga hvernig það kæmi út að byrja á tómri lóð og fara hægt og rólega af stað.


Ég byrjaði á að googla og viti menn, ég fékk upp síðu, þar sem land undir sumarbústaði er augýst á 200.000 krónur og leigan fyrir árið er 30.000 kr. Lóðirnar eru frá 0,16 - 0,63 hektarar að stærð. En, það er engin dagsetning á síðunni, kanski er þetta gömul vefsíða, þetta virðist nú vera frekar ódýrt. En, þarna eru símanúmer og netfang, best að senda fyrirspurn. Staðurinn er Selborgir í landi Urriðaár á Mýrum. Hljómar vel. Og lítur vel út.

Ég ætla vissulega að skoða þennan möguleika, skoða hvað leigulóð kostar og líka hvað kostar að kaupa sér lóð. Í maí voru samþykkt lög um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús: Lög um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús

Ég er búin að skoða lögin og finnst þau frekar flókin. Fljótt á litið lítur út fyrir að það sé kanski einfaldara að kaupa lóðina heldur en að leigja hana og borga ársleigu og eiga ef til vill á hættu að leigusali segi upp samningnum með tilheyrandi hugsanlegu veseni, ef til vill málaferlum ef menn eru ekki sáttir?

Það væri gaman að vita hvað þessi nýju lög hafa að segja fyrir eigendur sumarbústaða á leigulóðum. Eru þeir öruggir með lóðina sína, eða geta þeir lent í því að þurfa að flytja bústaðinn burtu? Eða selja bústaðinn til landeigandans á matsverði? Ég er ekki löglærð og átta mig ekki alveg á því hvort það að leigja sér lóð fyrir sumarbústað til 20 ára sé góður möguleiki miðað við að margir landeigendur eru tilbúnir til að selja fólki lóðina. Ein greiðsla í eitt skipti fyrir allt og enginn getur vísað manni burtu, enginn getur rift neinum samningum. Og maður getur selt bústaðinn sinn með lóð og öllu ef maður vill án þess að kaupandinn þurfi að semja við landeigandann.

Land er fasteign, það veit ég, og landeigendur, þeas fasteignaeigendur geta sagt upp leigendum sínum þegar um venjulega leiguíbúð er að ræða. Enda finnst öllum það sjálfsagt ef það er gert á réttan hátt. En ef maður leigir lóð, og byggir á henni bústað og plantar út trjám, þá er ekki eins auðvelt að flytja eins og að flytja úr íbúð. En ég skil það sjónarmið, að landeigandinn vilji rifta leigusamningnum, þetta er hans eign......

Jæja. Best að hætta sér ekki of mikið út í þessa sálma. En ég ætla að skoða næstu daga hvaða kjör eru í boði fyrir annars vegar leiguland og hins vegar hvað kostar að kaupa land. Ég ætla að skoða 0,4 - 0,5 hektara lóðir, gjarnan í Borgarfirðinum eða á Suðurlandi. Og einnig hvaða gæði fylgja þessum lóðum, t.d. rafmagn, heitt/kalt vatn o.s.frv. og hvað kosta gæðin?

Eitt að lokum, ársleigan fyrir lóðina sem litli bústaðurinn í Húsafelli er á, er 124.000 krónur á ári. Fékk það staðfest í dag. Leigan fyrir hann er semsé næstum því 3svar sinnum hærri en leigan fyrir lóðina í Fitjahlíðum. Og lóðin er eins og kom fram í gær, aðeins 0,12 hektari, frekar lítil lóð, en kanski alveg nógu stór miðað við svona lítinn bústað. Á einu ári er leigan 124.000 - 45.000 = 79.000 kr. hærri. Á 20 árum er það ca 1.600.000 hærra verð í leigu fyrir litla Húsafellsbústaðinn miðað við litla Skorradalsbústaðinn. Það þarf að taka allt með í reikninginn.

Með V3 kveðju. Þ.
Veist þú að þú getur, endurgjaldslaust, fært viðhald eignarinnar þinnar til bókar á vefnum: V3.is - Viðhaldsbók hússins þíns

30 júní 2008

Mig langar í sumarbústað.........



Jæja kæru lesendur. Nú langar mig, V3 bloggarann, í sumarbústað! Ég stefni á að blogga um það sem ég verð áskynja um varðandi þessi mál. Allar athugasemdir og góðar ábendingar eru vel þegnar.

Ég byrjaði semsé í dag, mánudaginn 30. júní 2008 að skoða fasteignablöðin sem bárust inn um lúguna. Ég fann tvo bústaði auglýsta hjá Eignamiðlun Mosfellsbæjar. Ég hringdi og Svanþór sölumaður sendi mér að bragði nánari upplýsingar um bústaðina. Annar bústaðurinn er í Skorradal í Fitjahlíðum og hinn er í Húsafelli. Sá í Fitjahlíðum kostar 13,9 milljónir og sá í Húsafelli kostar meira en helmingi minna eða bara 5,9 milljónir!



Báðir eru á leigulóð, og þá vaknar fyrsta spurningin? Er maður að kaupa köttinn í sekknum með að kaupa sér bústað á leigulóð? Í sölulýsingunni fyrir bústaðinn í Fitjahlíðum er tekið fram að nýr lóðarleigusamningur skal gerður við sölu á eigninni. Ætli það sé almennt gert þegar bústaður á leigulóð er seldur?

Næsta spurning vaknar um leið, hvernig getur maður nú reiknað út hvort sé hagkvæmara að kaupa land eða leigja undir sumarbústað? Eða að kaupa gamlan bústað á leigulandi ef það þarf líka að semja við eiganda landsins við sölu? Hvort gerir maður fyrst, kaupir bústaðin af eigandanum eða semur við landeigandann? Þetta hlýtur nú allt að haldast í hendur?

En, aftur að bústöðunum tveimur. Til að byrja með skoða ég nánar upplýsingarnar um bústaðina tvo. Báðir eru semsé á leigulóð. Önnur lóðin er 0,12 hektari og hin er 0,2. Lóðin í Skorradal liggur niður að vatninu. Bústaðurinn í Skorradal er um 35 m2 og er frá árinu 1974. Það þarf að styrkja stoðir undir bústaðnum. Bústaðurinn í Húsafelli er ekki nema 22 m2 en er frá árinu 1987. Hann er töluvert minni, á minni lóð og væntanlega ekki alveg eins mikið út af fyrir sig og bústaðurinn í Fitjahlíðum.

Þá er það peningahliðin: Leigan fyrir bústaðinn í Húsafelli er 124000 krónur fyrir árið 2008, ætli það sé bara hálf leiga? Árið er jú hálfnað? Þetta þyrfti að athuga betur. 124000 er ansi há leiga. Leigan er 3 - 6 sinnum hærri en í Skorradal. Kanski er þarna einu núlli of mikið, þ.a. leigan á ársgrundvelli sé 12400*2= 24.800 krónur?

Hvað með ásett verð, hvor bústaðurinn er á betra verði? Verðið á bústaðnum frá 1974 er ca 2,2 sinnum verðið á fasteignamati + lóðamati. Verðið á bústaðnum í Húsafelli er ca 1,2 sinnum verðið miðað við fasteignamat + lóðamat.

En, hann er minni, og ef upplýsingarnar um leiguna eru réttar, þá er hún miklu hærri. Á 20 árum er leigan fyrir Húsafellsbústaðinn 120.000 eða 240.000*20=2.400.000 eða 4.800.000 en fyrir bústaðinn í Skorradal, 45000*20=900.000. Eins gott að tékka af leigutöluna fyrir bústaðinn í Húsafelli, það munar um minna.

En, báðir bústaðarnir eru komnirn á listann og um miðjan júlí verður lagt af stað í skoðunarleiðangur og bústaðirnir skoðaðir svo framarlega sem þeir verði ekki seldir. Ef til vill verða fleiri bústaðir komnir á listann þegar að skoðunarleiðangrinum kemur. Og kanski verða komnar á hann lóðir, maður ætti ef til vil að byrja á að kaupa sér lóð og gerast lóðareigandi en ekki bara sumarhúsaeigandi?

Ég segi meira frá því síðar hvernig þessi mál þróast.

Með V3 kveðju. Þ.
Veist þú að þú getur, endurgjaldslaust, fært viðhald eignarinnar þinnar til bókar á vefnum: V3.is - Viðhaldsbók hússins þíns

08 maí 2008

Landskrá fasteigna - 180.328 fasteignir

Í 1.tbl 1. árgangi afmælisrits Félags fasteignasala, blaðinu Fasteignir, er á bls. 12 viðtal við Margréti Hauksdóttur, aðstoðarforstjóra Fasteignamats ríkisins. Í viðtalinu kemur fram að Ísland stendur í fremstu röð ríkja varðandi skráningu upplýsinga um fasteignir á Íslandi í gagnagrunninn Landskrá fasteigna. Skráin inniheldur upplýsingar á landsvísu um allar fasteignir á Íslandi. Frá 2001 hefur verið unnið að því að sameina fasteignamatsskrá og þinglýsingabók sýslumanna.

Margrét segir að í dag (maí 2008) séu upplýsingar um 180.328 fasteignir í skránni og það sé um 96% allra þinglýstra fasteigna á Íslandi. Dæmi um upplýsingar sem vistaðar eru í Landskrá fasteigna er brunabótamat, fasteignamat og upplýsingar um þinglýsta eigendur fasteignar.

Auk ýmissa annarra upplýsinga sem eru vistaðar í Landskránni má finna þar loftmyndir af 97% allra mannvirkja á landinu og ætli það sé ekki stærsta myndasafn landsins? Þú getur skoðað loftmynd af hvaða fasteign sem er með því að fara inn á vefinn hjá fasteignamatinu og slegið inn heimilisfang í reit ofarlega til hægri á forsíðunni.

V3.is sækir einmitt upplýsingar um fastanúmer fasteignar í Landskrá fasteigna þegar notandi býr til viðhaldsbók fyrir eign sína. Fastanúmer eignar er kennitala eignarinnar og þótt íbúð/eign skipti um eigendur heldur hún alla tíð fastanúmeri sínu. Þannig tilheyrir einnig viðhaldsbók eignar ávalt eigninni en er ekki bundin við eigandann.

04 maí 2008

Félag fasteignasala með nýjan fasteignaleitarvef í bígerð

Fasteignarleitarvefir eru í dag tveir á Íslandi, vefur mbl.is og vefur habil.is.

Í afmælisriti Félags fasteignasala, maí 2008, kemur fram í viðtali við Grétar Jónasson, framkvæmdastjóra Félags fasteignasala, að félagið mun á næstunni kynna nýjan fasteignaleitarvef, www.fasteignir.is.

Tilgangurinn er að auðelda fólki að finna eignir á netinu og bæta gæði auglýsinga vegna eigna sem eru til sölu. Fasteignasalarnir eru þeir sem skrá eignir á sölu og þeir búa yfir öllum upplýsingunum sem til þarf til að reka góðan fasteignarleitarvef. Auk upplýsingar um eignir á söluskrá er ætlunin að birta ýmsar gagnlegar upplýsingar á vefnum.

Fyrirhugað er að opna vefinn formlega í ágúst 2008.

V3.is óskar Félagi fasteignasala til hamingju með fyrirhugaðan vef. Það verður spennandi að fylgjast með þróun fasteignaleitarvefja næstu mánuðina. Ætli einhverjum detti í hug að tengill í rafræna viðhaldsbók fasteignar í sölu, gæti verið áhugaverður valkostur á fasteignaleitarvef?