05 október 2008

Fallegustu og litríkustu heimili veraldarinnar


Ég rakst á síðu þar sem samkeppni er í gangi um að finna fallegasta,litríkasta heimilið í heimi. Birtar eru myndir frá mörgum mjög fallegum, litríkum heimilum, skoðið og njótið.
Hér fyrir ofan er mynd frá Judi í Atlanta.

08 september 2008

Gulsópurinn og sírenan - byrjaðar að blómstra aftur

Eitt gott haust fyrir fáeinum árum, blómstraði gulsópurinn og sírenan í garðinum mínum um miðjan september. Báðar tegundirnar blómstruðu á fullu, reyndar aðeins minna en fyrri hluta sumars. Nú sýnist mér að þetta sé að gerast aftur. Ég sé eitt blóm á sírenunni en nokkur á gulsópnum. Ég hef tekið eftir því að gulsópar í fleiri görðum eru líka farnir að blómstra. Nú verður spennandi að sjá hvernig hitastigið verður næstu daga og fylgjast með því hvort sírenan blómstri aftur eins og hún gerði í september árið 2003.
Myndirnar hér fyrir neðan sýna sírenuna í blóma í september árið 2003



07 september 2008

Úrskurðarnefnd frístundamála skipuð

Nú er Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, búin að skipa í úrskurðarnefnd frístundamála í samræmi við lög sem tóku gildi 1 júlí síðastliðin.

Þegar langtímasamningur um leigulóð fyrir sumarbústað, rennur út getur tvennt gerst. Annað hvort eru leigutakinn og landeigandinn sammála um að framlengja samninginn sem þeir gera, eða að þeir eru ekki sammmála um framhaldið. Með lögunum frá því í sumar er tekið á því hvað er hægt að gera þegar menn koma sér ekki saman um framhaldið.

Markmið laganna er að tryggja eðlilegt jafnræði með aðilunum ef þeir ná ekki samkomulagi þegar leigusamningur rennur út. Réttur leigutaka virðist vera þokkalegur, ef leigutaka og landeiganda semst ekki um framhald/riftun samningsins, framlengist samningurinn. Reyndar með þeim fyrirvara að landeigandi getur ákveðið að krefjast innlausnar á mannvirkjum á lóðinni svo og endurskoðunar á leigugjaldi fyrir lóðina. Það er þarna sem úrskurðarnefndin kemur inn í. Hún á að hafa úrskurðarvald um fjárhæð innlausnarverðs og endurskoðað leiguverð ef samningar takast ekki milli leigutakans og landeigandans.


Myndin er tekin út um sumarbústaðaglugga. Úti rigndi og rigndi....

Sumarbústaðaeigendur ættu að kynna sér lögin en með tilkomu þeirra er væntanlega staða þeirra sem vilja eiga/byggja sér sumarbústað á leigulóð skýrari en áður var. Ég er á þeirri skoðun að það sé álitlegur kostur að byggja/kaupa sumarbústað á leigulóð miðað við það hvað verð á eignarlóðum fyrir sumarbústaði er hátt!

Slóðin á lögin er: heildarlög um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús nr. 75/2008

04 september 2008

Gott hengi í þvottahúsið


Ég rakst á mynd af nokkuð góðu hengi í þvottahúsið og deili henni hér með ykkur, kæru notendur V3.is.

Eins og sést á myndinni, má hækka og lækka hengið þ.a. þegar maður hengir upp þvottinn, þá hefur maður það í lægri stöðunni og að því loknu hífir maður það upp eins og rúllugardínu.

Góð hugmynd, hengja upp þvottinn í góðri hæð og lyfta honum síðan upp þ.a. hægt sé að ganga undir "snúruna"!

26 ágúst 2008

Athygli sumarhúsaeigenda vakin á nýjum lögum.

Á heimasíðu Landssambands sumarhúsaeigenda er vakin athygli á að allir leigutakar sem eru með (sumarhúsa)lóð á leigu og leigusamning sem rennur út fyrir 1. júlí 2010, þurfi að tilkynna leigusala/landeiganda að þeir óski eftir að framlengja leigusamninginn FYRIR 1.SEPTEMBER 2008! Það eru ekki margir dagar til stefnu. Með því að tilkynna landeiganda þetta framlengist leigusamningurinn um eitt ár en þó ekki lengur en til 1. júlí 2010.

Þetta virðist snúið, það er eins gott að kynna sér lögin um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, þau eru birt á heimasíðu Landssambands sumarhúsaeigenda: Lög um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús

Ég ætla að skoða þessi lög betur við tækifæri til þess að átta mig á því hvort það sé nokkuð mjög slæmt að kaupa sumarbústað á leigulóð frekar en að borga 2-4 milljónir fyrir landið og vera eigandi þess. Meira síðar......

16 ágúst 2008

Keyptu bústað til flutnings - og komu fyrir á lóðinni sinni

Hjón sem ég veit um, keyptu leigulóðarétt á sumarhúsasvæði á Suðurlandi í vor, fyrir ca 7-800.000 kr. Lóðarleigan er um 30.000 kr. á ári og leigutíminn ca 25 ár. Nú, í ágústbyrjun, er komið upp hús og þau farin að vera í bústaðnum. Það er reyndar ekki alveg tilbúið en næstum því. Og allt hefur gengið vel. Þá vaknar spurningin? Hvernig fóru þau að?

Þau keyptu bústað sem var seldur til flutnings. Bústaðurinn var í alveg ágætisstandi en eigendur hans ætluðu að fá sér stærri bústað. Þau fengu menn til að grafa holu og steypa stólpa/sökkla og fylla holuna með rauðamöl. Því næst kom húsið í heilu lagi og var lagt ofan á undirstöðurnar. Þar á það að standa í eitt ár þar til það verður endanlega boltað niður.

Nú ver verið að leggja síðustu hönd á rotþróna og vatns/raflagnir. Þetta hefur tekið ævintýralega stuttan tíma! Því miður veit ég ekki hver heildarkostnaðurinn er orðinn, en ef til vill áskotnast mér þær upplýsingar síðar. Þau létu drauminn rætast og óska ég þeim til hamingju með bústaðinn sinn! Ég læt mig enn dreyma, er reyndar núna með 3 sumarbústaði í sigtinu og lóðir á þremur stöðum. Ég ætla að bíða aðeins til að sjá hvernig verðið mun þróast fram á næsta vor. Á meðan er meiningin að leggja fyrir. Ef til vill get ég gert tilboð í sumarbústað eða lóð (leigulóð) næsta vor?

24 júlí 2008

Lán til að kaupa sumarbústað

Jæja, ég er búin að skoða nokkrar sumarhúsabyggðir í Borgarfirðinum og líst vel á allflesta staðina. Ég er ekki enn búin að gera upp við mig hvort ég vilji byrja á að leigja mér lóð og byggja bústað frá grunni eða kaupa eldri bústað. En ég vil gjarnan vera á leigulóð.

Ég ákvað í dag að skoða núna fjármálin betur og leit á heimasíður bankanna. Hvaða lánakjör ætli séu í boði fyrir fólk eins og mig sem langar í sumarbústað?

Jú, því miður, það eru ekki góðar fréttir. Bankarnir virðast lána til að byggja eða kaupa sumarbústað og/eða lóð. Þeir bjóða sýnist mér allir verðtryggð lán með 10 -12% vöxtum! Hvorki meira né minna. Þetta finnst mér of háir vextir ofan á verðtrygginguna. Það borgar sig greinilega að BÍÐA og LEGGJA FYRIR og sjá hvað gerist á sumarhúsamarkaðnum og lánamarkaðnum næsta árið......

Með V3 kveðju. Þ.
Veist þú að þú getur, endurgjaldslaust, fært viðhald eignarinnar þinnar til bókar á vefnum: www.V3.is - Viðhaldsbók hússins þíns