07 september 2008

Úrskurðarnefnd frístundamála skipuð

Nú er Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, búin að skipa í úrskurðarnefnd frístundamála í samræmi við lög sem tóku gildi 1 júlí síðastliðin.

Þegar langtímasamningur um leigulóð fyrir sumarbústað, rennur út getur tvennt gerst. Annað hvort eru leigutakinn og landeigandinn sammála um að framlengja samninginn sem þeir gera, eða að þeir eru ekki sammmála um framhaldið. Með lögunum frá því í sumar er tekið á því hvað er hægt að gera þegar menn koma sér ekki saman um framhaldið.

Markmið laganna er að tryggja eðlilegt jafnræði með aðilunum ef þeir ná ekki samkomulagi þegar leigusamningur rennur út. Réttur leigutaka virðist vera þokkalegur, ef leigutaka og landeiganda semst ekki um framhald/riftun samningsins, framlengist samningurinn. Reyndar með þeim fyrirvara að landeigandi getur ákveðið að krefjast innlausnar á mannvirkjum á lóðinni svo og endurskoðunar á leigugjaldi fyrir lóðina. Það er þarna sem úrskurðarnefndin kemur inn í. Hún á að hafa úrskurðarvald um fjárhæð innlausnarverðs og endurskoðað leiguverð ef samningar takast ekki milli leigutakans og landeigandans.


Myndin er tekin út um sumarbústaðaglugga. Úti rigndi og rigndi....

Sumarbústaðaeigendur ættu að kynna sér lögin en með tilkomu þeirra er væntanlega staða þeirra sem vilja eiga/byggja sér sumarbústað á leigulóð skýrari en áður var. Ég er á þeirri skoðun að það sé álitlegur kostur að byggja/kaupa sumarbústað á leigulóð miðað við það hvað verð á eignarlóðum fyrir sumarbústaði er hátt!

Slóðin á lögin er: heildarlög um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús nr. 75/2008

04 september 2008

Gott hengi í þvottahúsið


Ég rakst á mynd af nokkuð góðu hengi í þvottahúsið og deili henni hér með ykkur, kæru notendur V3.is.

Eins og sést á myndinni, má hækka og lækka hengið þ.a. þegar maður hengir upp þvottinn, þá hefur maður það í lægri stöðunni og að því loknu hífir maður það upp eins og rúllugardínu.

Góð hugmynd, hengja upp þvottinn í góðri hæð og lyfta honum síðan upp þ.a. hægt sé að ganga undir "snúruna"!

26 ágúst 2008

Athygli sumarhúsaeigenda vakin á nýjum lögum.

Á heimasíðu Landssambands sumarhúsaeigenda er vakin athygli á að allir leigutakar sem eru með (sumarhúsa)lóð á leigu og leigusamning sem rennur út fyrir 1. júlí 2010, þurfi að tilkynna leigusala/landeiganda að þeir óski eftir að framlengja leigusamninginn FYRIR 1.SEPTEMBER 2008! Það eru ekki margir dagar til stefnu. Með því að tilkynna landeiganda þetta framlengist leigusamningurinn um eitt ár en þó ekki lengur en til 1. júlí 2010.

Þetta virðist snúið, það er eins gott að kynna sér lögin um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, þau eru birt á heimasíðu Landssambands sumarhúsaeigenda: Lög um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús

Ég ætla að skoða þessi lög betur við tækifæri til þess að átta mig á því hvort það sé nokkuð mjög slæmt að kaupa sumarbústað á leigulóð frekar en að borga 2-4 milljónir fyrir landið og vera eigandi þess. Meira síðar......

16 ágúst 2008

Keyptu bústað til flutnings - og komu fyrir á lóðinni sinni

Hjón sem ég veit um, keyptu leigulóðarétt á sumarhúsasvæði á Suðurlandi í vor, fyrir ca 7-800.000 kr. Lóðarleigan er um 30.000 kr. á ári og leigutíminn ca 25 ár. Nú, í ágústbyrjun, er komið upp hús og þau farin að vera í bústaðnum. Það er reyndar ekki alveg tilbúið en næstum því. Og allt hefur gengið vel. Þá vaknar spurningin? Hvernig fóru þau að?

Þau keyptu bústað sem var seldur til flutnings. Bústaðurinn var í alveg ágætisstandi en eigendur hans ætluðu að fá sér stærri bústað. Þau fengu menn til að grafa holu og steypa stólpa/sökkla og fylla holuna með rauðamöl. Því næst kom húsið í heilu lagi og var lagt ofan á undirstöðurnar. Þar á það að standa í eitt ár þar til það verður endanlega boltað niður.

Nú ver verið að leggja síðustu hönd á rotþróna og vatns/raflagnir. Þetta hefur tekið ævintýralega stuttan tíma! Því miður veit ég ekki hver heildarkostnaðurinn er orðinn, en ef til vill áskotnast mér þær upplýsingar síðar. Þau létu drauminn rætast og óska ég þeim til hamingju með bústaðinn sinn! Ég læt mig enn dreyma, er reyndar núna með 3 sumarbústaði í sigtinu og lóðir á þremur stöðum. Ég ætla að bíða aðeins til að sjá hvernig verðið mun þróast fram á næsta vor. Á meðan er meiningin að leggja fyrir. Ef til vill get ég gert tilboð í sumarbústað eða lóð (leigulóð) næsta vor?

24 júlí 2008

Lán til að kaupa sumarbústað

Jæja, ég er búin að skoða nokkrar sumarhúsabyggðir í Borgarfirðinum og líst vel á allflesta staðina. Ég er ekki enn búin að gera upp við mig hvort ég vilji byrja á að leigja mér lóð og byggja bústað frá grunni eða kaupa eldri bústað. En ég vil gjarnan vera á leigulóð.

Ég ákvað í dag að skoða núna fjármálin betur og leit á heimasíður bankanna. Hvaða lánakjör ætli séu í boði fyrir fólk eins og mig sem langar í sumarbústað?

Jú, því miður, það eru ekki góðar fréttir. Bankarnir virðast lána til að byggja eða kaupa sumarbústað og/eða lóð. Þeir bjóða sýnist mér allir verðtryggð lán með 10 -12% vöxtum! Hvorki meira né minna. Þetta finnst mér of háir vextir ofan á verðtrygginguna. Það borgar sig greinilega að BÍÐA og LEGGJA FYRIR og sjá hvað gerist á sumarhúsamarkaðnum og lánamarkaðnum næsta árið......

Með V3 kveðju. Þ.
Veist þú að þú getur, endurgjaldslaust, fært viðhald eignarinnar þinnar til bókar á vefnum: www.V3.is - Viðhaldsbók hússins þíns

20 júlí 2008

Leigulóð eða eignarlóð fyrir sumarbústað?

Nú er viku dvöl í Borgarfirði lokið. Ég skoðaði lóðir og sumarbústaði sem eru til sölu (og lóðir til leigu), allt frá Skorradal upp í Húsafell og út á Mýrar. Ég komst nú ekki yfir öll sumarhúsahverfin en kom í nokkur þeirra. Til dæmis hverfið við Stóra Ás og nokkur hverfi við Skorradal. Lóðir í bígerð við Hraunsás voru einnig skoðaðar. Sumarhús og lóðir við Brókarvatn, í Svartagili, í landi Hallar og á Hvítársíðu voru skoðuð. Lóðir og bústaðir í landi Grímsstaða voru einnig skoðaðir. Ég ætlaði að skoða lóðir í Hvalfirðinum en það varð ekkert úr því að þessu sinni.

Og hver er niðurstaðan? Er skynsamlegt að kaupa lóð eða leigja eða kaupa eldri bústað? Á hann að vera á leigulóð eða á eignarlóð?

Í fyrsta lagi er ég búin að komast að niðurstöðu ef ákvörðunin verður að lokum að byrja á að fá mér lóð, án bústaðar. Það er ódýrara að leigja lóð en að kaupa. Og borgar sig ekki að mínu mati, að kaupa frístundalóð, hvernig sem maður reynir að reikna það dæmi til enda.

Dæmi
Leigulóð fæst gegn greiðslu 1.300.000 kr. upphafsgjald. Leiga á ári er 35.000 kr. og leigutíminn er 30 ár. Ákveðin þjónusta er innifalin í leiguverði. Sama lóð fæst keypt á 4.000.000 og engin leiga en ekki nein þjónusta þar sem ekki er verið að leigja neitt. Segjum að ég eigi 4.000.000. Ég festi mér leigulóðina og á 2.700.000 krónur eftir. Ég legg þær í banka og fæ miðað við 10% vexti 243 þús í vexti á ári að frádregnum fjármagnstekjuskatti.
Ég borga 35.000 krónur í ársleigu og á eftir 208 þúsund krónur. Gróflega reiknað þá á ég eftir 30 ár 6.000.000 í bankanum..... + 2.700.000 upphaflega höfuðstólinn. Þá get ég hugsanlega ákveðið að kaupa lóðina ef út í það er farið, en ég get ekki alveg reiknað út hvað hún muni kosta þá.... En ef ég get framlengt lóðarsamninginn þá myndi ég gera það og nota peningana í bankanum til að gera eitthvað fyrir bústaðinn!

Ef ég aftur á móti kaupi lóðina í dag þá á ég hana og þarf ekki að borga neina leigu en ég á enga peninga inni á bankanum eftir 30 ár. Ekki neinar 8.700.000 eins og ef ég hefði leigt lóðina.

Leigulóð með þeim gæðum sem fylgja flestum þeirra er ódýrari kostur fyrir þann sem lætur sig dreyma um að koma sér upp sumarbústað. Að mínu mati.

Með nýjum lögum um leiguland fyrir sumarbústaði er staða leigjandanna mjög bætt miðað við það sem áður var. Því ætti maður ekki að hika við að leigja sér land undir sumarhús svo framarlega sem gerður er fullgildur leigusamningur. Samningurinn ætti að vera til minnst 30 ára og tiltekið í honum hvað gerist eftir 30 ár þegar hann rennur út. Og ef maður selur bústaðinn sinn að þá geti kaupandinn gengið inn í samninginn sem fyrir er.

Í leigusamningnum þarf að vera ákvæði um það hvort hægt sé að rifta honum áður en samningstíminn er liðinn og hvernig skuli standa að því ef til þess kæmi. Það ætti að vera torvelt fyrir eiganda landsins að rifta leigusamningnum ef leigusali stendur í skilum með leigu og uppfyllir samninginn að sínu leiti. Ef eigandi vill rifta leigusamning og eigandi bústaðar vill ekki flytja bústaðinn í burtu, þá þyrfti landeigandinn jafnvel að kaupa bústaðinn og borga matsverð fyrir hann og gróður sem búið er að planta á landinu.

Ef rétt er staðið að málum get ég eftir það sem ég er búin að vera að skoða um þessi mál ekki með nokkru móti séð að það sé miklu betra að kaupa lóð en að leigja hana eins og fólk virðist í dag almennt halda.

Það sem ég sé aftur á móti er að landeigendur hagnast miklu meira á því að selja lóðirnar heldur en að leigja þær. Og því hafa þeir nýlega áttað sig á. Ef okkur er talið trú um að það sé miklu öruggara að kaupa lóð en að leigja hana, þá erum við að hjálpa landeigendum að hagnast sem mest á lóðunum sínum. Á kostnað okkar sjálfra, venjulega fólksins, sem getur ef til vill ekki látið drauminn um sumarbústað verða að veruleika ef við þurfum að kaupa lóð á 4.000.000 og svo eigum við eftir að gera allt sem við þurfum að gera.

Við gætum aftur á móti keypt leigulóð á 1.300.000, keypt lítið gestahús og komið okkur upp litlu húsi með rafmagni og köldu vatni og rotþró, á ca 2.700.000. Og byrjað að njóta litla bústaðarins okkar, sett niður blóm og plöntur og byrjað að rækta okkar eigin trjá- eða grasagarð.

Niðurstaða mín í dag er að ég er sannfærð um að leigulóð skal það vera og nú er spurningin hvort á ég að byrja með nýja leigulóð eða kaupa mér eldri bústað á leigulóð? Það er verkefni næstu daga að kanna þetta og reikna dæmið til enda.

Með V3 kveðju. Þ.
Veist þú að þú getur, endurgjaldslaust, fært viðhald eignarinnar þinnar til bókar á vefnum: www.V3.is - Viðhaldsbók hússins þíns

06 júlí 2008

50.000 lóðir fyrir sumarhús......

Samkvæmt fréttum hjá RUV í kvöld er búið eða langt komið að skipuleggja um 50.000 sumarhúsalóðir á Íslandi! Fjöldi sumarbústaða er um 14.000 bústaðir þ.a. fjöldi lóða ætti að duga næstu þrjár aldirnar skv. fréttinni. Skv. fréttinni má ætla að verð á sumarbústaðalóð, og gat ég ekki alveg skilið hvort um var að ræða leigulóð eða eignarlóð, myndi lækka um 50%. Það er eins gott að taka öllum sumarbústaðahugleiðingum með ró og ekki flýta sér. Bíða og fylgjast með....