03 febrúar 2008

Ef íbúðinni hefði tilheyrt viðhaldsbók...

Hjón í Reykjavík keyptu sér íbúð á annarri hæð í litlu fjölbýli. Íbúðin leit vel út með parketi á stofunni. Parketið leit út fyrir að vera nýlegt en eitthvað fannst fólkinu vera að því. Þau fóru því í það að taka upp parketið af gólfinu. Þá kom í ljós að undir parketið hafði verið lagður plastdúkur. Þetta fannst þeim auðvitað frekar skrítið. Undir plastdúknum kom í ljós raki. Í stað þess að uppræta þennan raka þegar parketið hafði verið lagt á sínum tíma, var bara plast lagt yfir gólfið til að hlífa nýja parketinu.


Við nánari skoðun kom í ljós að rakinn stafaði af leka í gegnum sprungu í útvegg. Þetta dæmi sýnir ókunnugleika á eðli málsins. Ávalt skal finna og stoppa leka, þegar hans verður vart. Sama þótt það kosti húseigandann meiri útjöld og tafir, aldrei skal reyna að fela leka með því að setja yfir hann plast, dúk eða reyna að klæða hann á einhvern hátt af. Rakinn er jafn slæmur þótt hann sjáist ekki um stund, en hann kemur fram fyrr eða síðar, t.d. við næstu framkvæmdir eða lyktin sem fylgir rakaskemmdum fer að gera vart við sig. Mygla fylgir gjarnan raka.


Það skal einnig tekið fram að í fjölbýlishúsum er kostnaður vegna viðgerða á sprungum í útveggjum oftast sameiginlegur. Ef raki er í vegg og eigandi eignar telur að það sé vegna sprungu í útvegg, á hann að taka málið upp á húsfundi. Ef skemmdir eru farnar að gera vart við sig er oftast ekki eftir neinu að bíða, heldur að fá húsfélagið að ganga í málið. Raki í vegg getur einnig stafað af leku röri eða óþéttu baðherbergi í íbúð fyrir ofan viðkomandi vegg.
Reglan er að ef vart verður við raka við einhverjar framkvæmdir, skal finna hvaðan hann kemur og ráðast í viðgerðir til að losna við hann!


Ef þessari íbúð hefði tilheyrt viðhaldsbók, sem hefði verið samviskusamlega fyllt út, þá hefði í henni væntanlega komið fram að plast hefði verið lagt undir parketið. Þá hefðu núverandi kaupendur getað spurt nánar um þetta, hvers vegna var plast lagt undir parketið? Því slíkt gerir væntanlega ungur fasteignaeigandi sem hefur litla reynslu af viðhaldi og veit ekki hvað hann er að gera og gerir það væntanlega í góðri trú. Lykilatriðið við viðhaldsframkvæmdir er að vita hvernig var verkið unnið, hverjir unnu það og hvaða efni var notað. Eigandi sem heldur vel utan um allar sínar framkvæmdir og getur sýnt viðhaldsbókina sína þegar hann selur eignina sína, leggur spilin á borðið. Hann fær væntanlega síður á sig ásakanir um að hann hafi haldið mikilvægum upplýsingum leyndum með tilheyrandi fundum með lögfræðingum til að leita sátta.


Húseigendur, það er aldrei of seint að byrja að færa viðhaldið sitt til bókar. Gjörið svo vel að nota vefinn http://www.v3.is/ til þess. Skráning og notkun er án endurgjalds.