13 apríl 2008

Örbylgjuloftnet í fjölbýlishúsi.

Eftirfarandi fyrirspurn barst V3.is 12.apríl 2008.



Við hér í blokkinni höfum verið með örbylgjuloftnet sem nú er orðið ónýtt. Nú hagar málum þannig að meirihl. íbúa notar ekki lengur loftnetið heldur er með sjónvarp tengt við ADSL. Þurfa allir að taka þátt í kaupum og uppsetningu á nýju loftneti þó svo þeir þarfnist þess ekki lengur?
Kv. S.


Svarið sem V3.is sendi S:

Hæ. Takk fyrir fyrirspurn þína. Þetta er mál sem varðar marga í húsfélögum og eftirfarandi er mitt mat á þessu máli.



Það eru nokkrir möguleikar í boði til að taka inn sjónvarp. Síminn býður upp á sjónvarp í gegnum ADSL og í gegnum breiðband. Vodafone er að þróa það sama hjá sér og mun væntanlega bjóða upp á samsvarandi tengingarmöguleika síðar. Staðreyndin er þó að maður þarf að greiða nokkur þúsund kr. á mánuði fyrir að vera með ADSL tengingu þótt sjónvarpstengingin sjálf eigi ekki að kosta neitt. Flestar sjónvarpsstöðvarnar bjóða upp á sjónvarp í gegnum ljósleiðara Orkuveitunnar svo og yfir loftnetstenginu. Vandinn er aðeins að ekki eru allir komnir með ljósleiðarann og greiða þarf grunngjald mánaðarlega til Orkuveitunnar fyrir áskrift að ljósleiðaranum, en ekki að sjónvarpsmerkinu í gegnum loftnetið.



Bæði ADSL tenging Símans og tenging við ljósleiðara Orkuveitunnar, bjóða fyrst og fremst upp á tölvutengingu auk möguleikans á að taka inn sjónvarp.


Þeir sem eru bæði með sjónvarp og internet hafa væntanlega áhuga á að taka inn sjónvarpið í gegnum ADSL/ljósleiðarann, sérstaklega ef gæðin verða betri en í gegnum loftnetið. Þeir sem eru ekki með internetið og bara með sjónvarp vilja væntanlega nota (örbylgju)loftnetið enda er loftnetstenging án mánaðargjalds en á móti kemur að greiða þarf fyrir loftnetið í byrjun og kostnað vegna uppsetningar þess.



Samantekt:

Ég held að stjórn húsfélagsins eigi að leggja þetta fyrir húsfund og kosið verði um það hvernig eigi að skipta kostnaðnum fyrir uppsetningu nýs örbylgjuloftnets og hvernig taka eigi á því þegar íbúð er seld og nýr eigandi vill nýta sér loftnetið ef núverandi eigandi hennar "á ekkert í loftnetinu".



Örbylgjuloftnet eru gæði sem fylgja íbúð, ef tengingar frá loftneti í vegg íbúðarinnar eru til staðar. Áskrift að ADSL/breiðbandi/ljósleiðara er á nafni eiganda íbúðar og fylgir ekki íbúð þegar hún er seld.



Ég lagði fyrirspurn þína og svarið inn á spjallborð V3.is, www.spjallbord.com þar sem fólk getur líka sagt sína skoðun. Með kveðju, frá V3.is/ÞJ