07 september 2008

Úrskurðarnefnd frístundamála skipuð

Nú er Jóhanna Sigurðardóttir, félags- og tryggingamálaráðherra, búin að skipa í úrskurðarnefnd frístundamála í samræmi við lög sem tóku gildi 1 júlí síðastliðin.

Þegar langtímasamningur um leigulóð fyrir sumarbústað, rennur út getur tvennt gerst. Annað hvort eru leigutakinn og landeigandinn sammála um að framlengja samninginn sem þeir gera, eða að þeir eru ekki sammmála um framhaldið. Með lögunum frá því í sumar er tekið á því hvað er hægt að gera þegar menn koma sér ekki saman um framhaldið.

Markmið laganna er að tryggja eðlilegt jafnræði með aðilunum ef þeir ná ekki samkomulagi þegar leigusamningur rennur út. Réttur leigutaka virðist vera þokkalegur, ef leigutaka og landeiganda semst ekki um framhald/riftun samningsins, framlengist samningurinn. Reyndar með þeim fyrirvara að landeigandi getur ákveðið að krefjast innlausnar á mannvirkjum á lóðinni svo og endurskoðunar á leigugjaldi fyrir lóðina. Það er þarna sem úrskurðarnefndin kemur inn í. Hún á að hafa úrskurðarvald um fjárhæð innlausnarverðs og endurskoðað leiguverð ef samningar takast ekki milli leigutakans og landeigandans.


Myndin er tekin út um sumarbústaðaglugga. Úti rigndi og rigndi....

Sumarbústaðaeigendur ættu að kynna sér lögin en með tilkomu þeirra er væntanlega staða þeirra sem vilja eiga/byggja sér sumarbústað á leigulóð skýrari en áður var. Ég er á þeirri skoðun að það sé álitlegur kostur að byggja/kaupa sumarbústað á leigulóð miðað við það hvað verð á eignarlóðum fyrir sumarbústaði er hátt!

Slóðin á lögin er: heildarlög um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús nr. 75/2008